Mikael Egill var í byrjunarliði Venezia í kvöld sem lenti snemma í brekku þegar Federico Gatti kom heimaliði Juventus í forystuna strax á 19. mínútu leiksins. Fyrir leikinn var Juventus í 6. sæti deildarinnar en Venezia í neðsta sætinu.
Í síðari hálfleik náðu gestirnir að snúa við blaðinu. Mikael Egill jafnaði metin á 61. mínútu þegar hann skoraði með góðum skalla eftir sendingu frá Francesco Zampano. Þetta er annað mark Mikaels Egils í Serie A-deildinni á tímabilinu en hann skoraði einnig í 2-2 jafntefli gegn Monza fyrr á tímabilinu.
Gestirnir í Venezia létu hins vegar ekki þar við sitja. Þeir náðu 2-1 forystu með marki Jay Idzes á 83. mínútu en Mikael Egill var tekinn af velli tveimur mínútum fyrr.
Það stefndi allt í magnaðan sigur botnliðs Venezia en á síðustu sekúndum uppbótartímans jafnaði Dusan Vlahovic fyrir Juventus úr vítaspyrnu og tryggði liðinu jafntefli.
Venezia er því áfram í botnsæti deildarinnar með 10 stig, jafnmörg stig og lið Monza. Juventus er áfram í 6. sæti með 28 stig.
