Viðskiptablaðið greinir frá kaupunum en í umfjöllun miðilsins segir að Síminn Pay, dótturfyrirtæki Símans, muni stýra sameiginlegum rekstri fyrirtækjanna.
Samþætting Noona við lausnir Símans Pay muni leiða af sér nýjar vörur og þjónustu sem hafa það að markmiði að létta viðskiptavinum Noona og SalesCloud reksturinn. SalesCloud og Noona gengu í eina sæng í febrúar þegar hið síðarnefnda festi fest kaup á öllu hlutafé í hinu fyrrnefnda.
Sjá einnig: Noona kaupir SalesCloud
Í júlí gerði Samkeppniseftirlitið Símanum og Noona að stöðva markaðssetningu sem felur í sér framkvæmd á samruna fyrirtækjanna. Gögn gæfu til kynna að Noona hefði þá þegar náð til sín nýjum viðskiptavinum á grundvelli slíkrar markaðssetningar áður en kaupin hefðu verið gerð.
Athygli vakti í maí þegar Noona opnaði fyrir veitingahúsabókanir en áður hafði tæknin boðið upp á tímabókanir á annarri þjónustu, svo sem þjónustu hárgreiðslu- og snyrtistofa.
Haft var eftir forsvarsmönnum fyrirtækisins að verið væri að bregðast við ákalli veitingamanna um samkeppni á borðabókunarmarkaðnum. Markaðstorg sem innheimti gjald af hverri bókun freistist til að blóðmjólka veitingahús sem eigi þegar í vök að verjast vegna annarra verðhækkana.