Liðin mættust í 16-liða úrslitum Powerade-bikars karla í handbolta, á Ásvöllum, og unnu Haukar sannfærandi stórsigur, 37-29.
Samkvæmt dómi Dómstóls HSÍ voru Haukar hins vegar með ólöglegan leikmann. Samkvæmt nýlegum reglum má ekki breyta leikskýrslu innan við 60 mínútum fyrir leik en það gerði fulltrúi Hauka á svokölluðum tæknifundi fyrir leikinn.
Málið er þó ekki svo einfalt en Haukar hafa í sinni málsvörn bent á að það hafi dregist að hefja tæknifundinn, þar sem eftirlitsmaður HSÍ og fulltrúi ÍBV hafi mætt seint. Þó að tekist hafi að slá inn leikskýrslu í tölvu tímanlega, eða 62-63 mínútum fyrir leik, þá gafst ekki tími til að prenta út skýrsluna til yfirferðar vegna vandræða með prentara á Ásvöllum.
Fulltrúi Hauka hafi svo gert eina breytingu, skömmu eftir að frestinum til þess lauk, eftir að hafa séð útprentuðu skýrsluna. Eftirlitsmaður lét hann þá vita að þess yrði getið í skýrslu um leikinn og nú hefur þetta orðið til þess að Haukar eru úr leik í bikarnum.
„Löngu hætt að koma manni á óvart hvað kemur þaðan“
„Þetta er mjög sérstakt. Maður veltir fyrir sér hvert við séum komin sem hreyfing ef að þetta á að vera niðurstaðan. Ég hefði haldið að maður myndi vilja vinna leikinn á parketinu en ekki á einhverjum tæknilegum tiktúrum eða öðru,“ segir Andri í samtali við íþróttadeild og er vægast sagt ósáttur við dóminn:
„Það er ýmislegt sem að kemur þarna fram sem er ekki einu sinni sannleikanum samkvæmt, þannig að það má búast við því að þessu verði áfrýjað.“
Haukar hafa þrjá daga til þess að áfrýja dómnum.
Haukar og Eyjamenn hafa lengi eldað grátt silfur saman og segir Andri þá ákvörðun ÍBV að leggja fram kæru ekki óvænta:
„Það kemur okkur svo sem ekki á óvart. Önnur eins vitleysa hefur komið frá þessu félagi, því miður. Það er löngu hætt að koma manni á óvart hvað kemur þaðan.“
Áætlað er að næsta umferð í bikarnum verði spiluð 17. og 18. desember. Dregið er í hádeginu í dag, í 8-liða úrslit.