Veðurstofan hefur birt kort sem sýnir áætlaða staðsetningu gossprungunnar. Þetta er í sjöunda sinn sem gýs á svæðinu á árinu og tíunda gosið frá því að eldgosahrinan hófst í mars 2021.
„Smáskjálftahrina hófst um kl. 22:30 og um 22:37 mældust þrýstingsbreytingar í borholum HS Orku sem voru skýr merki um að kvikuhlaup væri hafið. Klukkan 23:14 opnaðist gossprunga á milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells. Gosprungan stækkaði í norðaustur,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Þar segir einnig að hraunstraumur renni í vestur og liggi sunnanvert í Stóra-Skógfelli. Enginn hraunstraumur sést í átt að Grindavík. Þá kom einnig fram í tilkynningu að á staðnum væri stíf norðanátt sem beindi gasmengun suður á bóginn yfir Grindavík.