Erlent

Stofnandi World Wrestling Entertainment verður mennta­mála­ráð­herra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Linda McMahon hefur verið ötull stuðningsmaður Trumps frá upphafi.
Linda McMahon hefur verið ötull stuðningsmaður Trumps frá upphafi. Getty/Chip Somodevilla

Donald Trump, fyrrverandi og verðandi Bandaríkjaforseti, hefur valið Lindu McMahon til að verða næsti menntamálaráðherra Bandaríkjanna. Mahon er milljarðamæringur og þekktust fyrir að vera einn af stofnendum World Wrestling Entertainment (WWE).

McMahon hefur verið ötull stuðningsmaður Trump frá því að hann bauð sig fyrst fram til forseta árið 2016 og aflað milljónum dala fyrir framboð hans. Hún fer nú fyrir nefnd Trump sem undirbýr valdaskiptin vestanhafs.

Í tilkynningu sinni sagði forsetinn verðandi að McMahon hefði staðið sig frábærlega og að sem menntamálaráðherra myndi hún vinna ötullega að því að innleiða val í öllum ríkjum Bandaríkjanna og valdefla foreldra til að taka bestu ákvörðunina fyrir fjölskylduna sína.

Trump hefur heitið því að draga verulega úr afskiptum alríkisins af menntamálum og koma yfirráðum yfir þeim aftur í hendur ríkjanna. 

McMahon ku hafa greint frá því að hún hafi löngum haft áhuga á menntamálum og hafi á sínum tíma ætlað að verða kennari en það hafi dottið upp fyrir þegar hún gifti sig. Hún stofnaði WWE ásamt eiginmanni sínum, Vince McMahon, en hjónin hafa meðal annars verið sökuð um að hafa hylmt yfir kynferðisbrot starfsmanns WWE gegn ungum drengjum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×