Innlent

Fjár­lög sam­þykkt en VG sat hjá

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Birgir Ármannsson stýrði sínum síðasta þingfundi á Alþingi í dag.
Birgir Ármannsson stýrði sínum síðasta þingfundi á Alþingi í dag. Vísir/Vilhelm

Fjárlagafrumvarp ársins 2025 var samþykkt á Alþingi í dag með 26 atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þingflokkur Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna líkt og aðrir flokkar stjórnarandstöðunnar. Þannig sátu 24 þingmenn hjá við atkvæðagreiðsluna en tólf þingmenn voru fjarverandi.

Þá voru samþykktar einnig þær breytingatillögur sem meirihluti fjárlaganefndar lagði til að lokinni annarri umræðu í þinginu.

Líkt og kunnugt er ákváðu Vinstri græn að taka ekki þátt í starfstjórn eftir að þing var rofið og boðað til alþingiskosninga að frumkvæði Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra. Í dag voru alls afgreidd tólf mál á Alþingi á síðasta þingfundinum fyrir alþingiskosningarnar sem fram fara þann 30. nóvember. 

Birgir Ármannsson forseti Alþingis frestaði þingfundi á tólfta tímanum í dag, en þingfundurinn í dag var jafnframt sá síðasti hjá Birgi sem mun kveðja þingið að afstöðnum kosningum eftir rúm tuttugu ár á þingi. 

Kveðjuræðu Birgis á Alþingi í morgun má heyra í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×