Karl konungur og Kamilla, eiginkona hans, voru ekki á lóð kastalans, samkvæmt frétt Sky News.
Mennirnir tveir eru sagðir hafa notað bíl á lóð kastalans til að keyra niður öryggishlið og keyrt svo í burtu á stolnum Isuzu pallbíl og stolnu rauðu fjórhjóli, sem Sun segir að þeir hafi tekið úr hlöðu á landareigninni.
Enginn mun hafa verið handtekinn enn sem komið er.
Hliðið sem mennirnir keyrðu niður er sagt í um fimm mínútna fjarlægð frá heimili Vilhjálms og Katrínar og keyra þau reglulega í gegnum það þegar þau fara af landareigninni.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem atvik sem þetta lítur dagsins ljós við Windsor. Árið 2021 klifraði maður sem heitir Jaswant Singh Chail og var vopnaður lásboga yfir grindverk við kastalanna og ætlaði hann sér að bana Elísabetu Bretadrottningu.
Hann ráfaði um lóð kastalans í tvo tíma áður en hann var stöðvaður.
Þegar öryggisvörður sá hann og spurði hvað hann væri að gera sagðist Chail vera „mættur til að drepa drottninguna“.
Chail er rúmlega tvítugur en hann var í fyrra dæmdur til níu ára fangelsisvistar.