Fótbolti

Mark­vörður Bayern með krabba­mein

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mala Grohs er aðalmarkvörður Bayern München.
Mala Grohs er aðalmarkvörður Bayern München. getty/Jonathan Moscrop

Mala Grohs, markvörður Þýskalandsmeistara Bayern München, hefur greinst með krabbamein. Félagið hefur framlengt samning hennar til að styðja við bakið á henni.

„Ég greindist með illkynja æxli. Ég er bjartsýn að eðlisfari. Ég er í góðum höndum hjá læknunum hérna. Stelpurnar og allir hjá félaginu styðja mig á allan hátt,“ sagði Grohs.

„Þetta allt er klárlega áskorun sem ég hélt að ég þyrfti aldrei að yfirstíga en með hjálp allra hérna get ég klárlega sigrast á þessu.“

Hin 23 ára Grohs kom til Bayern frá Bochum 2019 og var gerð að aðalmarkverði Bayern fyrir tímabilið 2022-23. Hún hefur þrisvar sinnum orðið þýskur meistari með liðinu. Glódís Perla Viggósdóttir er fyrirliði Bayern.

Grohs hélt hreinu þegar Bayern sigraði Vålerenga í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn. Hún spilar ekki fyrir liðið á næstunni en til að styðja við bakið á henni hefur Bayern framlengt samning hennar til 2026.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×