Innlent

Flestir treysta Krist­rúnu fyrir efna­hagnum

Árni Sæberg skrifar
Flestir segjast treysta Kristrúnu helst fyrir efnahagsstjórn.
Flestir segjast treysta Kristrúnu helst fyrir efnahagsstjórn. Vísir/Anton Brink

Ný könnun Gallup bendir til þess að flestir landsmenn treysti helst Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingar, af leiðtogum stjórnmálaflokkanna á Alþingi til að leiða stjórn efnahagsmála á Íslandi.

Í könnuninni, sem var framkvæmd dagana 25. október til 1. nóvember fyrir Samfylkinguna, sögðust tæplega 38 prósent treysta Kristrúnu best en þar á eftir koma Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokks, með tæplega 18 prósent traust og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sem 17 prósent segjast treysta best til að leiða stjórn efnahagsmála.

Svandís rekur lestina

Þar á eftir koma Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, með 8,6 prósent traust, og þá Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, með 7,5 prósent. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, er næstur með 6,8 prósent traust og svo Þórhildur Sunna Ævarsdóttur, formaður Pírata, sem þrjú prósent segjast treysta til þess að leiða stjórn efnahagsmála. Lestina rekur síðan Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, með traust 2,2 prósent landsmanna.

Í samræmi við aðra könnun

Í könnun Maskínu, sem framkvæmd var 22. til 28. október, kom fram að flestir treystu Samfylkingunni helst þegar kemur að efnahagsmálum en þó ekki jafnafgerandi og nú. Tæplega 26 prósent sögðust þá treysta Samfylkingunni.

Þá var Sjálfstæðisflokkurinn sá flokkur sem næstflestir sögðust treysta, eða um tuttugu prósent svarenda.

Í úrtaki könnunar Gallup voru 1731 af öllu landinu, átján ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallup. Svarhlutfall var 48,8 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×