Innlent

„Skapaðist á­stand“ vegna skorts á arm­böndum

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Skortur á armböndum í Laugardalslaug veldur rekstrartruflunum.
Skortur á armböndum í Laugardalslaug veldur rekstrartruflunum. Vísir/Vilhelm

Skortur á armböndum í Laugardalslaug veldur rekstrartruflunum. Nú er það í skoðun að selja sundlaugargestum armböndin. Forstöðumaður laugarinnar biðlar til fólks að skila þeim.

„Það skapaðist smá ástand í gærkvöldi, aðallega af því að sending af nýjum armböndum sem áttu að koma í gær seinkaði smá,“ segir Drífa Magnúsdóttir, forstöðumaður Laugardalslaugar. Sú sending hafi sem betur fer skilað sér í hús í dag.

Armböndin eru nýtt í að læsa skápum í búningsherbergjum sundlaugarinnar.

Hverfa hraðar eftir fjarlægingu armbandsgleypa

Fyrr í haust voru gerðar breytingar varðandi skil á armböndunum. Áður fyrr voru armböndin sett í svokallaðan armbandsgleypi sem opnaði útgönguhlið úr lauginni.

„Við áttum aldrei nógu mörg armbönd fyrir alla ef það var mikið að gera. Fólk var að deila skápum og það var alltaf smá vesen á hliðinu þegar fólk var að fara út,“ segir Drífa.

Armbandsgleyparnir voru fjarlægðir en í staðinn voru sett ílát í klefana sem að sundlaugargestir sækja og skila armböndunum í. Markmiðið var einfalda gestunum skilin.

Það hafi hins vegar ekki borið árangur og fækkar armböndunum mun hraðar eftir breytinguna.

Áður hefir verið fjallað um skort á armböndum í Laugardalslaug.

Í skoðun að selja armböndin

Nú sé það í skoðun að rukka sundlaugargesti fyrir armböndin. „Ef að þessi þróun heldur svona áfram sjáum við fram á að selja armböndin,“ segir Drífa.

Þá verði engin önnur leið til að komast í sund og læsa skápnum nema að greiða fyrir armbandið sérstaklega.

Drífa biðlar til þeirra sem sankað hafa að sér armböndum að skila þeim. „Þetta bitnar ekki á neinum nema starfsfólki og gestum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×