Þetta kemur fram í pósti Læknafélags Íslands til félagsmanna sinna sem starfa samkvæmt kjarasamningi félagsins við fjármála- og efnahagsráðherra. Læknar höfðu áður boðað verkfallsaðgerðir sem ríkið taldi ólöglegar. Stjórn Læknafélagsins ákvað í samráði við samninganefnd að láta ekki reyna á þann ágreining fyrir dómstólum heldur fresta verkfalli og efna til nýrrar atkvæðagreiðslu um nýtt verkfallsplan.
Atkvæðagreiðsla um verkfallsboðunina er nú hafin en með þessu frestast fyrirhuguð verkföll um viku. Fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar er aðeins breytt og nær til hvers vinnustaðar lækna í staðinn fyrir að vera allsherjaratkvæðagreiðsla.
Samningslausir í um sjö mánuði
Fyrirhuguðum verkföllum er lýst með eftirfarandi hætti á kjörseðli: „Það verða vikulega verkföll, samtímis á öllum vinnustöðvum lækna, sem verkfall nær til, frá 25. nóvember og fram að páskum. Aðra vikuna eru allir vinnustaðir lækna í verkfalli frá miðnætti til kl. 12 að hádegi frá mánudegi til fimmtudags. Hina vikuna eru verkföll annað hvort á þriðjudegi og fimmtudegi eða mánudegi og miðvikudegi, en með sama fyrirkomulagi, þ.e. frá miðnætti til hádegis. Engin verkföll verða þó frá 20. desember 2024 til og með 5. janúar 2025.“
Um umtalsvert harðari aðgerðir er að ræða en áður var boðað til. Þær hljóðuðu upp á verkfallsaðgerðir hjá einstökum deildum einn og einn dag.
Kjarasamningar lækna hafa verið lausir frá 1. apríl síðastliðnum eða í um sjö mánuði.
„Samningaviðræður hafa ekki skilað þeim árangri, sem samninganefnd LÍ gerði sér vonir um og nauðsynlegt talið að þrýsta á árangur með verkfallsaðgerðum. Stjórn LÍ og samninganefnd hafa fjallað um tillögur aðgerðarhóps LÍ og samþykkt að bera þær undir atkvæði lækna, sem starfa samkvæmt kjarasamningi LÍ og fjármála- og efnahagsráðherra. Atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun LÍ er nú hafin. Atkvæðagreiðslan stendur yfir til kl. 16 fimmtudaginn 7. nóvember,“ segir í tölvupósti Læknafélags Íslands (LÍ) til félagsmanna.