Trausti Jónsson veðurfræðingur útskýrir í samtali við fréttastofu að regnboginn hafi myndast í þunnri skýjaslæðu. Skýin hafi hulið neðri hluta regnbogans en á neðri hluta regnboga megi sjá liti.
„Þá sérðu ekki nema rétt efsta hlutann, miklu minna en þú sérð yfirleitt í regnboga. Það er algengara að maður sjái neðri hluta bogans,“ segir Trausti.
Hann segir að skýin séu úr örsmáum vatnsdropum, og þegar droparnir eru smærri en venjulega greini maður síður liti í regnboga. „Þannig að þeir verða hvítari og einsleitari en ella.“
Regnboginn svipar til svokallaðs þokuboga, en Trausti segir að til þess að kalla megi fyrirbærið þokuboga þurfi þoka að vera fyrir hendi. Þar af leiðandi teljist regnboginn ekki til þokuboga.