Guan er aðeins tvítugur og þetta var því stórt skref fyrir svona ungan kylfing að fá að keppa á PGA móti.
Viku seinna fékk hann golfbolta í augað. Hann er nú blindur á þessu auga.
„Hvernig í ósköpunum á ég að geta komið til baka eftir þetta,“ skrifaði Jeffrey Guan á samfélagsmiðilinn Instagram
Slysið varð í Nýju-Suður-Wales í Ástralíu. Allt í einu kom golfbolti fljúgandi og hann fékk hann í beint í annað augað.
„Allt varð svart. Ég hrundi niður og það eina sem ég man var þegar ég lá í sjúkrabílnum á leiðinni á sjúkrahúsið,“ skrifaði Guan.
Hann var seinna um kvöldið fluttur með þyrlu á lækningastofu sem sérhæfir sig í augnameiðslum. Hann var í tvær vikur í gjörgæslu.
„Pressan var það mikil í auganu að ég átti mjög erfitt með að sofa, hafði litla sem enga matarlyst og gat varla gengið. Allar hreyfingar sem kostuðu smá orku höfðu í för með sér ólýsandi sársauka,“ skrifaði Guan.
Þegar var komið fram á þriðju viku eftir slysið þá minnkaði þrýstingurinn á auganu. Hann fékk þá fyrstu jákvæðu fréttirnar frá læknunum.
„Þeir sögðu mér líka að meiðslin væru alvarleg. Ég hafði brotnað á mörgum stöðum í kringum augnbotninn og það tæki að minnsta kosti sex mánuði að gróa,“ skrifaði Guan.
Að lokum fékk hann hrikalegar fréttir. Hann verður blindur á auganu til frambúðar.
„Auðvitað varð ég reiður og þunglyndur. Ég hugsaði um að þetta myndi hafa miklar afleiðingar fyrir mig og mína fjölskyldu. Öll þessi vinna og allar þessar æfingar í öll þessi ár með þeim fórnum sem því fylgdi. Af hverju er þetta að gerast fyrir mig? Hvernig í ósköpunum get ég komið til baka og orðið jafngóður eða betri kylfingur. Ég hafði enga hugmynd, var alveg niðurbrotinn og týndur,“ skrifaði Guan.
Það er betra hljóð í honum í dag. Hann segir hafa frábært fólk í kringum sig og ætlar að reyna að koma til baka.
„Ég mun gera allt til að upplifa drauminn minn. Síðustu fjórar vikur hafa verið þær erfiðustu í mínu lífi en ég er orðin sterkari andlega eftir þetta og ég mun takast á við þessa áskorun. Ég ætla að koma til baka,“ skrifaði Guan.