Alls hafa tólf stjórnmálaflokkar lýst yfir framboði fyrir komandi alþingiskosningar þann 30. nóvember. Frestur til að skila inn framboðum og meðmælum í öllum kjördæmum er til kl.12 fimmtudaginn 31. október. Mynd er að komast á framboðslista hjá tíu af tólf flokkum og eru oddvitar flokkanna komnir fram í langflestum kjördæmum. Græningjar og Ábyrg framtíð hafa hins vegar ekki kynnt sína lista.
Kraginn er fjölmennasta kjördæmið og þar er barist um 13 þingsæti. Þar tefla flokkarnir fram fólki með mikla stjórnmálareynslu en svo má líka sjá áberandi fólk úr öðrum greinum.

Reynsluboltar í Kraganum
Í oddvitasætunum í Suðvesturkjördæmi/Kraganum eru til dæmis bæði formenn Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar og svo varaformaður VG. Framsókn teflir fram heilbrigðisráðherra og Píratar formanni þingflokksins. Formaður þingflokks Miðflokksins er einnig oddviti þar. Þá leiðir stofnandi Lýðræðisflokksins sinn lista í kjördæminu. Landlæknir fer fyrir Samfylkingu, Þingmaður fyrir Flokki fólksins og prestur leiðir fyrir Sósíalistaflokkinn í kjördæminu.
Ráðherrar og formenn í Reykjavík norður og suður
Í Reykjavík norður eru ellefu þingsæti. Þar eru margir reyndir þingmenn í forystusætum en líka glænýtt fólk. Ráðherrar fara fyrir Framsókn og Sjálfstæðisflokki, þingmaður fyrir Viðreisn og formaður Samfylkingar leiðir sinn flokk í kjördæminu. Formaður VR leiðir Flokks fólksins, lögfræðingur Pírata og loftslagsaktívisti er oddviti fyrir VG í Reykjavík norður.

Í Reykjavík Suður eru ellefu þingsæti í boði og margir reynsluboltar þar sömuleiðis. Má þar nefna formenn Flokks fólksins og Vinstri grænna, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur tefla fram ráðherrum. Þingmenn fara svo fyrir Viðreisn, Pírötum og Samfylkingu og borgarfulltrúi fer fyrir Sósíalistaflokknum.

Mörg ný nöfn á listum út á landi
Í Suðurkjördæmi eru tíu þingsæti. Þar má sjá mörg ný nöfn eins og orkumálastjóra fyrir Framsókn, sviðsstjóra almannavarna sem er oddviti Samfylkingar, kvikmyndagerðamaður leiðir Pírata og leikskólastjóri VG. Bóndi leiðir lista Lýðræðisflokks og lögreglustjóri Miðflokkinn. Þingmenn leiða lista Viðreisnar og Flokk fólksins og ráðherra er oddviti Sjálfstæðisflokks í kjördæminu.

Í Norðausturkjördæmi sem fær tíu þingsæti má líka sjá mörg ný nöfn. Þannig fer kennari fyrir Viðreisn, aðstoðarforstjóri fyrir Sjálfstæðisflokk, forstöðumaður leiðir Pírata og sóknarprestur VG. Þingmenn leiða fyrir Samfylkingu og Framsóknarflokk. Loks er formaður Miðflokksins oddviti í kjördæminu fyrir sinn flokk.

Norðvesturkjördæmi fær átta þingsæti. Þar leiða þingmenn fyrir Framsókn og Flokk fólksins, aðstoðarmaður formanns Viðreisnar fyrir flokkinn, lyfsali fyrir Sjálfstæðisflokk, formaður leigjendasamtakanna er oddviti sósíalista, formaður samtakanna 22 leiðir fyrir Lýðræðisflokk, sendiherra fer fyrir Miðflokki, kynjafræðingur leiðir Pírata, bæjarstjóri fer fyrir Samfylkingu og kennari er í oddvitasæti fyrir Vinstri græn.
