Í kosningapallborð fréttastofunnar, sem hefst klukkan 14 í dag, fær Berghildur Erla Bernharðsdóttir fréttamaður til sín gesti sem eiga það flestir sameiginlegt að vera þekkt andlit úr öðru samhengi en af vettvangi stjórnmálanna. Nú hafa þau hins vegar öll tekið sæti á lista og gefa kost á sér til Alþingis.
Þetta eru þau Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn sem er í 3. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, Jens Garðar Helgason, aðstoðarforstjóri Kaldvíkur sem leiðir lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, sem er oddviti Suðurkjördæmis fyrir Samfylkingu og Halla Hrund Logadóttir fráfarandi orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi sem leiðir lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.
Öll hafa þau látið að sér kveða í þjóðmálaumræðu, hvert með sínum hætti, en í Pallborðinu fáum við að kynnast þeim sem stjórnmálamönnum. Við ræðum kosningabaráttuna framundan, málefnin, stöðu flokkanna og aðdraganda þess að þau ákváðu að gefa kost á sér á lista.
Kosningapallborðið er í beinni útsendingu á Vísi og í sjónvarpinu á Stöð 2 Vísi og hefst klukkan 14:00. Hægt verður að fylgjast með í spilara sem mun birtast að neðan skömmu fyrir útsendingu.
Upptaka verður aðgengileg eftir augnablik.