Svíar unnu þarna 4-0 sigur á Lúxemborg og spila seinni leikinn á heimavelli á morgun. Sigurvegarinn tryggir sér sæti í umpili um laust EM-sæti. Íslenska landsliðið er búið að tryggja sér sæti á EM sem fer fram í Sviss næsta sumar.
En aftur að vandræðum sænsku landsliðskonunnar.
Miðvörðurinn Nathalie Björn uppgötvaði það nefnilega stuttu fyrir leik að hún hafði gleymt að klæða sig í sænsku landsliðstreyjuna.
„Já ég veit. Ég gleymdi að klæða mig í treyjuna. Í fyrstu var ég í miklu stresskasti af því að búningsklefinn var svo langt í burtu. Það hefði tekið mig þrjár mínútur að hlaupa þangað og ná í treyjuna,“ sagði Nathalie Björn við Aftonbladet.
„Leikurinn var líka að byrja. Ég hugsaði bara: Andskotinn hafi það og hljóp. Sem betur fer þá var treyjan bara á varamannabekknum svo að þetta var í lagi,“ sagði Björn.
„Ég hélt samt að ég væri í henni og þetta var því smá sjokk. Ég var líka svo skömmustuleg yfir því að hafa gleymt að fara í treyjuna. Það er samt svolítið fyndið og sýnir almenningi að við fótboltafólkið getum líka gleymt hlutum,“ sagði Björn létt.