Karólína Lea sagði eftir leikinn að þetta hafi verið söguleg þróun í leik liðsins síðan að Þorsteinn Halldórsson tók við sem landsliðsþjálfari.
Íslenska liðið var lengi 1-0 yfir en fékk síðan á sig þrjú mörk á síðustu tuttugu mínútum leiksins.
Það er verulega svekkjandi
„Ég er bara mjög svekkt. Steini sagði að þetta hafi verið í fyrsta skiptið síðan hann tók við, þar sem við missum niður 1-0 forystu. Það er verulega svekkjandi,“ sagði Karólína Lea á miðlum KSÍ eftir leik.
„Þær skora líka auðveld mörk og við hefðum getað gert betur í því. Auðvitað er þetta samt eitt af bestu landsliðum í heimi. Við byggjum bara ofan á þessa frammistöðu,“ sagði Karólína en eru þær sáttar við frammistöðuna í þessum tveimur leikjum á móti Ólympíumeisturunum?
Voru inn í báðum leikjunum
„Já ég held að við getum ekki verið annað en það. Við vorum inn í báðum leikjunum, skorum í báðum leikjunum og við áttum góða spilakafla inn á milli. Ég held því að við getum labbað sáttar frá borði,“ sagði Karólína.
„Það var róterað mikið í þessum leikjum en það sást ekkert á liðinu að það hafi verið að breyta. Mér fannst gríðarlegur stígandi í báðum leikjunum,“ sagði Karólína.
Hún skoraði eina mark íslenska liðsins og það með skoti beint úr horni. Hvernig var að sjá boltann í netinu?
„Ég var bara gríðarlega sátt enda langt síðan að ég skoraði. Sjúklega ánægð,“ sagði Karólína.
🎙️ Viðtal við Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur, en hún skoraði mark beint úr horni í kvöld.#viðerumísland pic.twitter.com/NG9lavmU5e
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) October 28, 2024