Þetta kemur fram í árshlutareikningi bankans, sem gefinn var út í dag. Þar er haft eftir Jóni Guðna Ómarssyni, bankastjóra, að rekstur bankans hafi gengið vel á þriðja ársfjórðungi.
Arðsemi eigin fjár hafi verið 13,2 prósent á fjórðungnum, sem sé yfir fjárhagsmarkmiðum bankans. Arðsemi eiginfjár á fyrstu níu mánuðum ársins hafi verið 10,9 prósent, sem sé einnig yfir fjárhagsmarkmiðum. Tekjur hafi aukist um tæp 4 prósent samanborið við sama ársfjórðung í fyrra og kostnaðarhlutfall hafi verið 41,4 prósent á þriðja ársfjórðungi, og 44,2 prósent fyrir fyrstu níu mánuði ársins, en markmið bankans sé að það hlutfall sé undir 45 prósentum. Unnið hafi verið að straumlínulögun í rekstri með hagræðingu að leiðarljósi.
Bankinn vel í stakk búinn til að mæta eftirspurn
Í lok septembermánaðar hafi bankinn haldið vel sótt Fjármálaþing þar sem ný þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka hafi verið kynnt fyrir viðskiptavinum. Að þessu sinni hafi einnig verið sérstök áhersla á landeldi og ljóst að mikil þörf verði á aðkomu fjármögnunaraðila í þessari vaxandi atvinnugrein á komandi árum.
Mikil þörf sé einnig á uppbyggingu og fjármögnun margvíslegra innviða og bankinn sé vel í stakk búinn til að taka þátt í þeim verkefnum sem framundan eru.
Fagnar vaxtalækkun
Eignagæði séu áfram góð og langvarandi hátt vaxtastig hafi ekki haft teljandi áhrif á lánabók bankans, þó aðeins beri á auknum vanskilum á ótryggðum lánum, en heildarfjárhæð ótryggðra lána bankans sé lítil í samhengi við heildarumfang útlána. Fregnir af þverrandi verðbólgu á haustmánuðum og vaxtalækkunarákvörðun Seðlabankans í byrjun októbermánaðar hafi því verið góðar fréttir og gangi spár greiningaraðila eftir muni verðbólga halda áfram að hjaðna á komandi mánuðum, sem ætti að skapa rými til frekari vaxtalækkana Seðlabankans.
„Við leggjum mikla áherslu á að efla fjárhagslega heilsu viðskiptavina okkar og nýtum til þess margvísleg verkfæri. Að undanförnu höfum við verið í samskiptum við viðskiptavini sem eru með lán þar sem komið er að vaxtaendurskoðun og verið viðskiptavinum innan handar í krefjandi vaxtaumhverfi. Þá mun bankinn áfram leggja mikla áherslu á fræðslu um fjármál til að tryggja að viðskiptavinir okkar séu vel upplýstir um þá kosti sem í boði eru.“
Helstu atriði í fjárhagslegri afkomu Íslandsbanka á fyrstu níu mánuðum ársins 2024:
- Hagnaður af rekstri bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 nam 18,0 milljörðum króna (9M23: 18,4 milljarðar króna). Arðsemi eigin fjár var 10,9% á ársgrundvelli (9M23: 11,3%).
- Hreinar vaxtatekjur á fyrstu níu mánuðum ársins námu 36,4 milljörðum króna, sem er samdráttur um 1,3% á milli ára.
- Hreinar þóknanatekjur drógust saman um 1,7% á milli ára, og námu 10,3 milljörðum króna á fyrstu 9 mánuðum ársins, samanborið við 10,5 milljarða króna á sama tímabili árið 2023.
- Hrein fjármagnsgjöld voru 507 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2024, samanborið við fjármagnsgjöld að fjárhæð 214 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra.
- Stjórnunarkostnaður var 21,3 milljarðar króna fyrstu níu mánuði ársins, ef frá er talin 470 milljón króna stjórnvaldssekt sem gjaldfærð var á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 19,8 milljarða króna stjórnunarkostnað á fyrstu níu mánuðum ársins 2023, ef frá er talin gjaldfærsla að fjárhæð 860 milljónir króna vegna stjórnvaldssektar.
- Kostnaðarhlutfall bankans, leiðrétt fyrir stjórnvaldssektum, hækkaði úr 41,3% á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 í 44,2% á fyrstu níu mánuðum ársins 2024.
- Virðisbreyting fjáreigna var jákvæð um 293 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2024, samanborið við virðisrýrnun sem nam 13 milljónum króna fyrir sama tímabil árið áður.