Fótbolti

Til­kynnti um brott­rekstur þjálfarans í beinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michel Der Zakarian þarf að leita sér að nýju starfi.
Michel Der Zakarian þarf að leita sér að nýju starfi. getty/Jean Catuffe

Forseti franska fótboltaliðsins Montpellier, Laurent Nicollion, sýndi þjálfara þess, Michel Der Zakarian, enga miskunn og nánast rak hann í beinni útsendingu eftir stórt tap fyrir Marseille.

Montpellier steinlá fyrir Marseille í frönsku úrvalsdeildinni í gær, 0-5. Liðið hefur tapað sex af fyrstu átta leikjum sínum og er á botni deildarinnar.

Nicollion mætti í viðtal eftir þetta niðurlægjandi tap og greindi frá því að hann hefði rekið Der Zakarian.

„Við getum ekki skipt um 25 leikmenn svo því miður þurfti ég að grípa til þess ráðs að láta Michel fara. Við töluðum saman í klefanum eftir leikinn og ég sagði honum að þetta væri búið,“ sagði Nicollion sem skaut svo á leikmenn Montpellier.

„Ég sagði við leikmennina að þökk sé frábæru framlagi þeirra hafi þeir rekið þjálfarann og þeir þyrftu að sýna ábyrgð gegn Toulouse í næstu viku.“

Der Zakarian lék með Montpellier á árunum 1988-98 og þjálfaði svo liðið 2017-21. Hann tók aftur við því í febrúar í fyrra og var samningsbundinn Montpellier fram á næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×