Fótbolti

Al­gjör perla Jóhanns gegn sveinum Gerrards

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson búinn að taka skotið sem endaði með stórglæsilegu jöfnunarmarki.
Jóhann Berg Guðmundsson búinn að taka skotið sem endaði með stórglæsilegu jöfnunarmarki. @alorobah_fc

Landsliðsfyrirliðinn Jóhann Berg Guðmundsson skoraði stórbrotið mark fyrir Al Orobah í sætum sigri á lærisveinum Stevens Gerrard, Al Ettifaq, í sádiarabísku úrvalsdeildinni í fótbolta í gærkvöld.

Markið skoraði Jóhann með frábæru föstu skoti, langt utan teigs, efst i vinstra hornið. Markið má sjá hér að neðan ásamt öllu því helsta sem gerðist í leiknum.

Markið skoraði Jóhann framhjá slóvakíska landsliðsmarkverðinum Marek Rodák, og jafnaði metin í 2-2 gegn Al Ettifaq. Jóhann og félagar fögnuðu svo 3-2 sigri.

Það var Spánverjinn Cristian Tello, fyrrverandi leikmaður Barcelona og Real Betis, sem skoraði hin tvö mörkin fyrir Al Orobah, og þar á meðal sigurmarkið á 84. mínútu.

Hollendingurinn Georginio Wijanldum, fyrrverandi leikmaður Liverpool, hafði komið Al Ettifaq í 2-1 i lok fyrri hálfleiks, þrátt fyrir að Abduallah Radif, kantmaður liðsins, væri rekinn af velli skömmu áður. Portúgalinn Joao Costa hafði áður jafnað metin í 1-1.

Markið sem Jóhann skoraði var hans annað i sjö leikjum í sádiarabísku deildinni. Al Orobah er eftir sigurinn með tíu stig í 10. sæti af átján liðum en Al Hilal er efst með fullt hús stiga, eða 21 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×