Erlent

Lagði Trump til 10 milljarða króna á þremur mánuðum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Musk og Trump virðast vera mestu mátar.
Musk og Trump virðast vera mestu mátar. AP/Julia Demaree Nikhinson

Auðjöfurinn Elon Musk gaf 75 milljónir dala, jafnvirði rúmlega 10 milljarða króna, í kosningasjóðinn America PAC á aðeins þremur mánuðum, sem fjármagnar aðgerðir til að fá kjósendur Donald Trump á kjörstað í barátturíkjunum sjö.

Á þessum sama tíma, júlí til september, voru útgjöld sjóðsins 72 milljónir dala.

Um er að ræða gríðarlega mikilvægan stuðning við Trump, þar sem framboð hans er afar háð utanaðkomandi aðilum þegar kemur að því að ýta við Bandaríkjamönnum og fá þá til að mæta á kjörstað.

Gríðarlega mikið er í húfi en úrslit í barátturíkjunum munu ráða því hver verður næsti forseti og í flestum þeirra sér varla á milli Trump og Kamölu Harris í skoðanakönnunum.

Musk, sem hefur birst á baráttufundum Trump, hefur gefið út að hann muni koma fram á röð funda í Pennsylvaníu fram að kosningum en til að mæta munu kjósendur þurfa að skrá sig í gegnum heimasíðu America PAC.

Pennsylvanía er eitt mikilvægasta barátturíkið, með flesta kjörmenn, nítján talsins.

Musk lýsti yfir stuðningi við Trump í júlí síðastliðnum. Hann hafði áður sagst hafa stutt Demókrata en í ljós hefur komið að hann hefur um árabil fjármagnað hina ýmsu íhaldsshópa og -samtök.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×