Fótbolti

„Mér finnst þetta bara kjaft­æði“

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Óskarsson mundar skotfótinn. Hann skoraði eftir stórkostlegan sprett í upphafi leiks en það dugði því miður ekki í kvöld.
Orri Óskarsson mundar skotfótinn. Hann skoraði eftir stórkostlegan sprett í upphafi leiks en það dugði því miður ekki í kvöld. vísir/Hulda Margrét

„Ég skil bara ekki hvernig þetta féll ekki okkar megin í dag,“ segir Orri Óskarsson eftir óhemju svekkjandi 4-2 tap Íslands gegn Tyrklandi á Laugardalsvelli í kvöld, í Þjóðadeildinni í fótbolta.

„Þetta er ömurlegt. Þetta var enginn 4-2 leikur fannst mér. Mér fannst við sterkari aðilinn á mörgum köflum í fyrri hálfleik og hefðum getað komist í meira en 1-0,“ segir Orri sem skoraði fyrsta mark leiksins eftir magnaðan sprett.

Í seinni hálfleiknum fengu Tyrkir tvær vítaspyrnur, eftir að dómarinn dæmdi hendi eftir skoðun á skjá, en hann fór ekki í skjáinn þegar skot Orra var varið með hendi af varnarmanni á marklínu.

„Mér finnst þetta bara kjaftæði. Ég bara fatta þetta ekki. Hvernig getur þetta verið svona, að þeir fá tvö svona auðveld víti en svo getur hann fleygt sér á línunni með hendurnar fyrir boltann en ekkert víti dæmt. Það sýður á mér. Ég bara fatta þetta ekki,“ sagði Orri, enda með ólíkindum að dómarinn skyldi ekki að minnsta kosti skoða atvikið þegar Orri hefði getað fengið víti til að jafna metin í 2-2:

„Það er ótrúlegt að nýta sér það ekki þegar þú ert búinn að gera það tvisvar áður. Ég bara skil það ekki. Þetta er auðvitað bara móment sem hefði getað breytt leiknum, hundrað prósent. Fyrir mér var þetta klárlega hendi og ég skil bara ekki hvernig þetta féll ekki okkar megin í dag.“

Henry Birgir Gunnarsson

Andri Lucas Guðjohnsen jafnaði þó metin í 2-2 fyrir Ísland á 83. mínútu en Tyrkirnir skoruðu tvö mörk í lokin til að vinna sigur:

„Kannski vorum við aðeins of mikið að reyna að taka sigurinn, í stað þess að verja það sem við höfðum. Það hefði kannski verið aðeins klókara að vera aðeins passívari og taka fleiri skref aftur á bak,“ segir Orri sem sér þó margt jákvætt eftir leikina við Tyrkland og Wales:

„Mér fannst þetta klárlega vel spilaður gluggi. Við spiluðum vel að mörgu leyti í báðum leikjum og það eru margir hlutir að verða betri á hverjum degi. Leikmennirnir finna það og ég held að íslenska þjóðin finni það líka. Ég vona að allir haldi áfram að styðja við bakið á okkur og mér fannst stuðningurinn í þessum landsliðsglugga frábær.“


Tengdar fréttir

Sjáðu allt það helsta frá súru tapi á Laugar­dals­velli

Ísland mátti þola tap gegn Tyrklandi á Laugardalsvelli í Þjóðadeild karla eftir að komast 1-0 yfir snemma leiks. Lokatölur 2-4 en tapið heldur betur súrt eftir vítaspyrnufíaskó á báðum endum vallarins. Mörkin má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×