Noregur, Austurríki og Slóvenía eru nú öll jöfn að stigum, með sjö stig hvert, en Kasakstan nánast fallið niður í C-deild með aðeins eitt stig fyrir síðustu tvær umferðirnar í nóvember.
Marko Arnautovic kom Austurríki yfir í fyrri hálfleik gegn Noregi í kvöld, í Linz, en Alexander Sörloth jafnaði metin skömmu fyrir hlé.
Snemma í seinni hálfleik skoraði Arnautovic aftur, úr víti, og eftir það opnuðust flóðgáttirnar. Philipp Lienhart, Stefan Posch og Michael Gregoritsch bættu við þremur mörkum á þrettán mínútum án þess að Erling Haaland og félagar næðu að bregðast við.
Það var Jan Mlakar sem tryggði Slóvenum sigur gegn Kasakstan, 0-1, með marki snemma í seinni hálfleik.
Í riðli fjögur í C-deild gerðu Færeyingar 1-1 jafntefli við Lettland á heimavelli sínum í Þórshöfn. Hanus Sörensen kom Færeyjum yfir í lok fyrri hálfleiks en Dario Sits jafnaði metin um miðjan seinni hálfleik.
Gunnar Vatnhamar, leikmaður Íslandsmeistara Víkings, var í byrjunarliði Færeyja og lék allan leikinn.
Færeyingar hafa aðeins tapað einum leik en gert þrjú jafntefli í keppninni hingað til og eru neðstir í riðlinum með þrjú stig. Lettland og Armenía eru með fjögur stig hvort og Norður-Makedónía efst með 10 stig eftir 2-0 útisigur gegn Armenum í dag.