Saka hefur verið sendur heim til Arsenal þar sem að meiðsli hans verða metin nánar. Hann fór af velli snemma í seinni hálfleik gegn Grikkjum eftir að hafa meiðst í hægri fæti.
Saka hefur verið á sínum stað í liði Arsenal á leiktíðinni og skorað þrjú mörk í tíu leikjum í öllum keppnum. Liðið missti norska fyrirliðann Martin Ödegaard út vegna ökklameiðsla í síðasta landsleikjaglugga, í september.
Fyrsti leikur Arsenal eftir yfirstandandi landsleikjahlé er gegn Bournemouth 19. Október.
Curtis Jones, miðjumaður Liverpool, er einnig farinn úr enska hópnum eftir að hafa verið kallaður inn fyrr í þessari viku. Jones hefði mögulega getað spilað sinn fyrsta A-landsleik en varð að yfirgefa hópinn af persónulegum ástæðum.
Eftir standa 22 leikmenn sem æfa í Lundúnum í dag áður en þeir halda til Helsinki síðdegis.
Englendingar þurfa á sigri að halda gegn Finnum eftir að hafa tapað gegn Grikkjum sem eru efstir í riðlinum með níu stig. Englendingar eru með sex stig, Írarnir hans Heimis Hallgrímssonar með þrjú og Finnar án stiga. Lærisveinar Heimis sækja Grikki heim á morgun.