Fótbolti

Þriðji Maldini-ættliðurinn sem er valinn í lands­liðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daniel Maldini í ítalska landsliðsbúningnum.
Daniel Maldini í ítalska landsliðsbúningnum. getty/Claudio Villa

Daniel Maldini, leikmaður Monza, var í fyrsta sinn í valinn ítalska landsliðshópinn sem mætir Belgíu og Ísrael í Þjóðadeildinni. Hann er þriðji Maldini-ættliðurinn sem er valinn í ítalska landsliðið.

Daniel er sonur Paolos Maldini, eins besta varnarmanns allra tíma. Hann lék 126 landsleiki á árunum 1988-2002 og átti einu sinni leikjamet ítalska landsliðsins.

Faðir Paolos, Cesare, lék einnig fjórtán landsleiki á árunum 1960-63. Þá þjálfaði hann ítalska landsliðið á árunum 1996-98.

Daniel er uppalinn hjá AC Milan og lék 24 leiki með aðalliði félagsins. Hann var lánaður til Spezia, Empoli og Monza og síðastnefnda félagið keypti hann svo í sumar. Daniel hefur leikið fimmtán leiki fyrir Monza og skorað fimm mörk.

Öfugt við pabba sinn og afa er Daniel ekki varnarmaður heldur sóknarsinnaður miðjumaður. Hann lék sjö leiki fyrir yngri landslið Ítalíu en hefði einnig getað leikið fyrir Venesúela, heimaland móður sinnar.

Ítalía mætir Belgíu í Róm 10. október og Ísrael í Udine fjórum dögum seinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×