Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að Ásta lék sinn fyrsta leik í efstu deild fyrir Breiðablik árið 2009. Alls urðu leikirnir í efstu deild 176 talsins og Ásta lítur stolt fyrir farin veg og er þakklát fyrir allar sínar stundir í græna hluta Kópavogs. Bæði þær góðu en einnig þær erfiðu og krefjandi því tími Ástu hjá Breiðabliki hefur ekki aðeins verið gönguferð í garðinum.
Hún hefur þurft að glíma við krefjandi og erfið meiðsli, upplifað súr töp en einnig mikla gleðitíma og sæta sigra. Þrír Íslandsmeistaratitlar og þrír bikarmeistaratitlar eru vitnisburðir þess. Ásta skilur eftir sig skarð sem yrði erfitt að fylla fyrir hvaða lið sem er.
„Ég byrjaði aðeins að pæla í þessu rétt fyrir tímabilið,“ segir Ásta Eir við íþróttadeild Stöðvar 2 um aðdraganda ákvörðunar sinnar að leggja knattspyrnuskóna á hilluna.
„Þá fann ég fyrir tilfinningu á þá leið að ég gæti mögulega verið tilbúin í að leggja skóna á hilluna. Að þetta yrði mitt síðasta tímabil. Ég hins vegar hugsaði þó alltaf fyrst að ég yrði tilbúin í að gera það ef við myndum standa uppi sem tvöfaldir meistarar eða myndum allavega vinna titil.“
Ásta Eir hafði látið nánustu fjölskyldu sína vita af því hvaða tilfinningar væru að bærast um innra með sér varðandi möguleg endalok ferilsins. Breiðablik komst í úrslitaleik Mjólkurbikarsins en laut þar í lægra haldi gegn Val.
„Þá fékk ég þá spurningu frá mínum nánustu sem vissu stöðuna á mér hvort ég ætlaði að endurhugsa þetta eitthvað.“
En það var á þeim tímapunkti sem Ásta fór að sjá hlutina öðruvísi.
„Þetta snýst ekki bara um titla. Þetta er bara ákvörðun leikmannsins og ég byrjaði þá virkilega að fara inn í alla leiki til þess að njóta. Hélt þessu leyndu lengi en er mjög sátt með þessa ákvörðun mína. Auðvitað endaði þetta handrit fullkomlega. Með Íslandsmeistaratitli eins og ég hafði séð fyrir mér. Það gerir þetta enn þá betra. Ég er mjög sátt í hjartanu eftir þetta allt saman.“
Viðtalið við Ástu Eir í heild sinni þar sem farið er nánar í saumana á ákvörðun hennar, tímann hjá Breiðabliki, úrslitaleikinn gegn Val sem og framhaldið hjá henni og ástina á Breiðabliki má sjá hér fyrir ofan. Þá má nálgast viðtalið í hlaðvarpsformi hér fyrir neðan.