Eldurinn kom upp á tannlæknastofunni sem er til húsa í Fellsmúla 26. Rúnar Vilhjálmsson tannlæknir er einn eigenda stofunnar. Hann hefur ekki enn getað farið inn á stofuna til að meta tjón.
„Við þurfum að bíða eftir að lögregla ljúki sér af þarna,“ segir Rúnar. Í kjölfar eldsvoða tekur lögregla við rannsókn málsins.

Rúnar vísar til upplýsinga frá slökkviliðinu þess efnis að tjónið hafi verið töluvert, bæði af völdum eldsins og reyks.
„Það verður sjálfsagt lokað í einhverja daga eða vikur.“

Um er að ræða nokkuð stóra tannlæknastofu þar sem fimm tannlæknar, þrír tannfræðingar og þrír tannsmiðir taka þátt í rekstri auk annars starfsfólks. Allt í allt um tuttugu manns.
„Starfsfólkið er auðvitað slegið yfir þessum fréttum. Við erum að reyna að halda utan um það,“ segir Rúnar. Fyrir mestu sé að enginn hafi slasast.

Hann segist ekki hafa neina hugmynd um líkleg eldsupptök. Lögregla verði að fá að ljúka sinni rannsókn.
Rúnar segir stofuna hafa fengið inni í Grensáskirkju þar sem starfsfólkið vinni að því að komast inn í bókunarkerfið sitt sem sé sem betur fer geymt í skýi enda liggi netþjónn stofunnar niðri.

Eldsvoði kom upp á dekkjaverkstæði í sama húsnæði í febrúar.
„Það var við hliðina á okkur en þetta er auðvitað alls ótengt. Bara óskemmtileg tilviljun. Það er fyrir mestu að enginn slasaðist og ekkert tjón varð á fólki. Allt hitt má bæta.“