Á sunnudaginn gerði Arsenal 2-2 jafntefli við City þar sem liðið var manni færri allan seinni hálfleikinn. Eftir leikinn gagnrýndi Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, dómara leiksins, Michael Oliver. Keane gaf lítið fyrir orð Artetas og sagði honum að hætta að kvarta.
Í hlaðvarpinu Stick to Football hélt Keane áfram að pönkast í Arteta og Arsenal og gagnrýndi varfærna nálgun þeirra í leikjunum gegn Brighton og City og fyrir ítrekaðar tafir. Arsenal missti mann út af með rautt spjald í báðum leikjunum.
„Þeir negldu bara fram, eins og smálið með hugarfar smáliðs. Arsenal gerði það sama gegn Brighton þegar 10-15 mínútur voru eftir. Markvörðurinn lagðist niður gegn Brighton á heimavelli. Hugarfar þeirra gegn City á útivelli var nákvæmlega eins og gegn Brighton á heimavelli,“ sagði Keane.
„Ég er að segja að þegar þú ert með boltann, haltu þá í hann. Reyndu að ná 4-5 sendingum milli manna. Þeir töfðu gegn Brighton á heimavelli svo gleymdu því að þetta hafi bara verið gegn City.“
Jöfnunarmark Johns Stones í leiknum á Etihad á sunnudaginn kom í veg fyrir að Arsenal kæmist á topp ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið er í 4. sæti hennar með ellefu stig, tveimur stigum á eftir City. Næsti leikur Arsenal er gegn nýliðum Leicester City á Emirates á laugardaginn.