Valur var 2-0 undir í hálfleik gegn Stjörnunni í Bestu deild karla á mánudaginn en kom til baka og náði jafntefli, 2-2.
Þeir Baldur Sigurðsson og Atli Viðar Björnsson furðuðu sig á varfærnislegu uppleggi þjálfara Vals, Srdjans Tufegdzic, í leiknum gegn Stjörnunni.
„Það var áhugavert að hlusta á Túfa í viðtali eftir leik. Hann talaði um að þeir hefðu gert breytingar í hálfleik sem hefðu gert það að verkum að þeir hefðu unnið seinni boltann og ákefðin hefði aukist. Þá spyr maður sig: Hvernig var upplegg Vals? Það var rosalega, rosalega passívt. Það er augljóst að Túfa er að spila sinn bolta og hann er bara góður í því að stilla upp liðum. Þau eru þétt og það eru þessar hefðbundnu færslur, ekkert nýtt í þessu. Það eru tveir frammi, annar dettur á djúpa miðjumanninn og þetta sem við þekkjum öll,“ sagði Baldur í Stúkunni í gær.
„En er réttlætanlegt að vera með þetta Valslið og koma svona varfærið inn í leik gegn Stjörnunni á heimavelli, með fullri virðingu fyrir þeim? Þú getur ekki mætt með Valslið á heimavelli og verið með það í hálfgerðri handbremsu í heilan hálfleik.“
Valsarar voru mun áræðnari í seinni hálfleik, færðu sig framar og það gaf góða raun. Þeir jöfnuðu með mörkum Albins Skoglund og Gylfa Þórs Sigurðssonar.
Atli Viðar tók undir með Baldri og velti því fyrir sér hvort leikmenn Vals sættu sig við að spila jafn varfærnislega og þeir gerðu í fyrri hálfleik.
„Mér fannst frammistaða og framganga Vals í fyrri hálfleik segja manni allt. Þeir vilja ekki spila svona. Þeir nenna því ekki og vilja ekki standa fyrir þetta,“ sagði Atli Viðar.
„Mér finnst vera komin svo mikil mótsögn og þversögn í öllu. Þetta er fótboltinn hans Túfa en þessi hópur mun ekki dansa þennan tangó með honum mikið lengur.“
Valur er í 3. sæti Bestu deildarinnar með 39 stig, þrettán stigum á eftir Víkingi og Breiðabliki. Næsti leikur Valsmanna er gegn Víkingum á sunnudaginn.
Innslagið úr Stúkunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.