Fimmtán sátu hjá.
Umrætt samkomulag er nokkurs konar vegvísir inn í framtíðina og unnið að frumkvæði framkvæmdastjórans António Guterres. Það þykir þó hafa verið útþynnt mjög í samningaviðræðum um efni og orðalag.
Útspil Rússa kom nokkuð á óvart en þeir sögðu samkomulagið fyrst og fremst þjóna hagsmunum Vesturlanda og ef tillaga þeirra um að fresta atkvæðagreiðslu yrði ekki samþykkt myndu þeir leggja fram tillögu um viðauka þar sem tekið yrði fram að þau málefni sem samkomulagið fjallaði um væru á forræði einstakra ríkja og ættu ekki að sæta afskiptum Sameinuðu þjóðanna.
Báðum tillögum var hins vegar hafnað.
Samkvæmt Guardian vöktu tilraunir Rússa reiði meðal ríkja Afríkubandalagsins og hjá sendinefnd Mexíkó en meðal þeirra ríkja sem greiddu atkvæði með Rússum voru Belarús, Venesúela, Sýrland og Íran.
Guterres sagði á þinginu í gær að markmið samkomulagsins væri að færa fjölþjóðahyggjuna aftur frá bjargbrúninni og að 21. aldar vandamál krefðust 21. aldar lausna. Lögð er áhersla á forgang alþjóðalaga umfram þjóðarlög, sem er eitt af því sem virðist hafa farið fyrir brjóstið á Rússum.
Meðal einstakra þátta samkomulagsins má nefna stofnun nýs samráðsvettvangs um neyðartilvik, svo sem faraldra, náttúruhamfarir og matvælaöryggi og nýja ráðgefandi eftirlitsnefnd sérfræðinga um hættur gervigreindar.