Diddy, sem heitir fullu nafni Sean Combs, var handtekinn á mánudag og ákærður fyrir að hafa frá árinu 2008 verið hluti af glæpasamtökum sem báru ábyrgð á mansali, nauðungarvinnu, mannráni, íkveikjum, mútuþægni og að hindra framgang réttvísinnar.
Saksóknarar sökuðu rapparann um að nota peninga sína og völd til að skipuleggja „niðrandi og á köflum ofbeldisfullar kynlífsathafnir sem kölluðust ,freak-offs'.“ Hann hafi leikstýrt og framleitt margra klukkutíma og margra daga upptökur af slíkum athöfnum þar sem hann hafi hótað og þvingað konur til að uppfylla kynferðislegar þarfir sínar.
Fulltrúar Alríkislögreglunnar sögðust hafa gert meira en þúsund flöskur af barnaolíu og öðrum sleipiefnum upptækar af heimilum rapparans.
Hlakkar til að hreinsa nafn sitt
Þingfesting í málinu fór fram í alríkisdómstóli í New York á þriðjudag þar sem dómarinn Robyn Tarnofsky neitaði honum um lausn úr varðhaldi gegn tryggingu.
Eftir þingfestinguna sagði Marc Agnofilo, lögfræðingur Diddy, við blaðamenn fyrir utan dómshúsið að Diddy hefði beðið eftir þessum degi. „Hann hefur hlakkað til að hreinsa nafn sitt, og ætlar að gera það,“ sagði lögfræðingurinn.
Agnofilo áfrýjaði ákvörðun dómarans á miðvikudag um að halda Diddy í varðhaldi en dómarinn staðfesti fyrri ákvörðun.
Samkvæmt heimildarmönnum NBC hefur rapparinn verið settur á sjálfsvígsvakt og fylgjast verðir Metropolitan varðhaldsstöðvarinnar (e. Metropolitan Detention Center) náið með honum. Talsmaður Diddy sagði sömuleiðis við NBC að hann væri hraustur, sterkur og einbeittur að því að vinna málið.
Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.