Lögregla heldur nokkuð þétt að sér spilunum varðandi rannsókn málsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu er um íslensk feðgin að ræða. Fram kom í tilkynningu frá lögreglu á tíunda tímanum í morgun að stúlkan væri á grunnskólaaldri.
Lögreglu barst tilkynning um málið um kvöldmatarleytið í gærkvöldi og var faðirinn handtekinn í Krýsuvík.

Að sögn Helenu Rósar Sturludóttur, upplýsingafulltrúa Ríkislögreglustjóra, aðstoðaði sérsveit Ríkislögreglustjóra Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í útkallinu.
Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu sem fer með rannsókn málsins, tjáði fréttastofu í morgun að málið væri á frumstigi.