Fótbolti

Ron­aldo með yfir milljarð fylgjanda á sam­fé­lags­miðlum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cristiano Ronaldo er vinsæll á samfélagsmiðlum.
Cristiano Ronaldo er vinsæll á samfélagsmiðlum. Getty Images/Hugo Amaral

Knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo hefur náð gríðarlega merkum áfanga. Framherjinn sem spilar með Al Nassr í Sádi-Arabíu er nefnilega kominn með yfir milljarð fylgjenda á samfélagsmiðlum.

Hinn 39 ára gamli Ronaldo hefur skorað yfir 900 mörk á ferli sínum fyrir Sporting, Real Madríd, Juventus, Manchester United og landslið Portúgals. Hann stefnir á 1000 mörk en á meðan það er eitthvað í það hefur hann náð merkum áfanga á samfélagsmiðlum.

Fjöldinn dreifist yfir þá fylgjendur sem hann er með á samfélagsmiðlunum Instagram, Facebook, Twitter, YouTube og tvo kínverska miðla, Weibo og Kuaishou.

Í frétt BBC, breska ríkisútvarpsins, er tekið fram að ekki er um milljarð einstaklinga að ræða þar sem margt fólk fylgir honum eflaust á fleiri en einum miðli.

Þar segir þó einnig að um ótrúlegan fjölda fylgjenda sé að ræða. Lionel Messi er til að mynda með 623 milljónir fylgjenda. Ronaldo skákar einnig Justin Bieber (607 milljónir), Taylor Swift (574 milljónir) og Selenu Gomez (690 milljónir).

Ástæða þess að Ronaldo komst yfir milljarðarmarkið er að nýverið byrjaði hann með YouTube-rás. Fékk hún yfir 50 milljón fylgjenda á innan við viku.

Ronaldo hefur ekki enn stofnað aðgang á TikTok eða Threads, samfélagsmiðlar sem eru vinsælir hjá ungu kynslóðinni. Geri hann það er líklegt að fjöldi fylgjenda hækki enn frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×