Hinn 49 ára gamli Scholes, sem er talinn einn af betri miðjumönnum sinnar kynslóðar á Englandi, var gestur í hlaðvarpinu The Overlap þar sem fyrrverandi samherjar hans Gary Neville og Roy Keane eru meðal þáttastjórnanda.
Scholes lék allan sinn feril með Man United og varð Englandsmeistari ellefu sinnum, þrívegis enskur bikarmeistari og tvívegis Evrópumeistari. Þrátt fyrir gríðarlega sigursælan feril þá voru nokkrir samherjar sem hreinlega stóðust ekki þær kröfur sem gerðar voru til þeirra.
"He was so unprofessional!" 👀
— The Overlap (@WeAreTheOverlap) September 5, 2024
Paul Scholes doesn't hold back on former teammate Mark Bosnich... pic.twitter.com/FEr9cgHe4k
Scholes nefndi Argentínumanninn Juan Sebastian Verón en þrátt fyrir að vera virkilega góður í fótbolta þá gengu hlutirnir ekki upp í honum í Manchester. Svo sneri hann sér að Bosnich sem fékk það verðuga verkefni að leysa Peter Schmeichel af hólmi.
„Mér fannst Bosnich góður þegar hann spilaði með Aston Villa en hann gat ekkert hjá okkur. Venjulega fá markmenn á sig 10-20 skot í skotæfingum en hann var sprunginn eftir þrjú. Svo var annað, hann gat ekki sparkað í boltann. Útspörkin hans drifu varla upp á miðju.“
Í ofanálag sagði Scholes að skórnir sem Bosnich hefði notað hefðu verið alltof stórir og ekki skrítið að hann gæti ekki sparkað í boltann.
Segja má að Scholes endurspegli þarna orð Sir Alex um þennan fyrrum markvörð félagsins. Í ævisögu sinni sem kom út árið 2013 sagði Skotinn að markvörðurinn væri einn latasti leikmaður sem hann hefði þjálfað. Þá sagði hann Bosnich vera hræðilegan atvinnumann.
Það kemur ef til vill lítið á óvart að Bosnich spilaði aðeins 36 leiki fyrir Man United og var látinn fara eftir eitt tímabil. Hann hélt marki sínu hreinu í 11 af 23 deildarleikjum og stóð uppi sem Englandsmeistari í lok tímabils.