„Þetta gerðist rétt fyrir utan borgarmörkin. Það keyrir bíll í veg fyrir rútuna og hálfpartinn í hliðina á henni að framan,“ segir Ellert Scheving, framkvæmdastjóri ÍBV, í samtali við Vísi.
„Það er ekki þægilegt að lenda í árekstri og auðvitað voru leikmenn svolítið hristir en ég held að þetta hefði ekki getað farið betur. Enginn alvarlega slasaður, hvorki hjá okkur né í bílnum,“ segir Ellert en bætti þó við að einn leikmaður hefði verið sendur í skoðun á Landspítalanum, vegna smávægilegs höfuðhöggs.
Eftir að hafa beðið í drykklanga stund héldu liðin með annarri rútu heim til Vestmannaeyja.
Handboltakonurnar héldu heim með tvö stig í farteskinu eftir sigur gegn Gróttu í fyrstu umferðinni í Olís-deildinni.
Fótboltakonurnar urðu hins vegar að sætta sig við 5-0 skell gegn HK í leik sem þó skipti litlu máli, í lokaumferð Lengjudeildarinnar. Þar enduðu Eyjakonur í 6. sæti og þurfa því að gera aðra tilraun á næsta ári til að komast aftur í Bestu deildina.