Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskip. Þar segir að krafist sé skaðabóta að fjárhæð 3.086.000.000 króna, auk dráttarvaxta frá 24. maí 2024, þar sem vísað er í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um meint samráð félaganna.
Fram kemur í tilkynningunni að fjárkrafa Alcoa byggi á minnisblaði ráðgjafafyrirtækisins Analytica ehf., sem innihaldi svonefnt frummat, frá 21. febrúar 2024.
„Ráðgjafafyrirtækið Hagrannsóknir sf., sem fræðimennirnir dr. Birgir Þór Runólfsson dósent og deildarforseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands og dr. Ragnar Árnason prófessor emeritus standa að, hafa yfirfarið umrætt minnisblað og unnið skýrslu um efni þess.
Niðurstaða þeirra er afgerandi um að vankantar þess séu svo alvarlegir að minnisblaðið sé í heild ónothæft sem mat á meintu tjóni. Fjallað var um skýrslu Hagrannsókna í síðustu uppgjörs kynningu Eimskips en hana má einnig finna hér.
Það er mat félagsins að ekkert tilefni sé til málsóknar stefnanda, enda séu skilyrði skaðabótaskyldu ekki uppfyllt. Þá er ætlað fjártjón stefnanda og þar með fjárkrafan engum haldbærum gögnum studd. Félagið hefur falið lögmanni þess að taka til varna í málinu,“ segir í tilkynningunni.
Gerðu sátt 2021
Líkt og áður hefur verið fjallað um gerði Eimskip sátt við Samkeppniseftirlitið árið 2021 vegna meints ólögmæts samráðs Eimskips og Samskipa. Eimskip greiddi þá 1,5 milljarða króna sekt vegna sáttarinnar.
Samskip var aftur á móti sektað um 4,2 milljarða króna vegna meints samráðsins en þarf ekki að greiða sektina á meðan málið er enn fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála og eftir atvikum dómstólum.