Ofurbikarinn er það sem við Íslendingar þekkjum sem meistarar meistaranna þar sem lands- og bikarmeistarar síðasta tímabils mætast í upphafi næsta tímabils.
Leikur liðanna var jafn og spennandi frá upphafi til enda og munaði aðeins einu marki á liðunum þegar flautað var til hálfleiks, staðan 15-14, Kadetten í vil.
Það sama var svo uppi á teningnum í seinni hálfleik og staðan að loknum venjulegum leiktíma var jöfn, 29-29. Því þurfti að grípa til framlengingar til að skera úr um sigurvegara.
Þar voru það Óðinn og félagar sem reyndust sterkari og Kadetten fagnaði að lokum eins marks sigri, 35-34. Eins og áður segir var Óðinn markahæsti maður vallarins, en hann skoraði tíu mörk úr ellefu skotum og nýtti öll fjögur vítaköst sín.