Samið verður við Barclays, Citi og Kviku sem munu verða umsjónaraðilar í fyrirhuguðu útboði en gert er ráð fyrir að samningum verði lokið síðar í þessum mánuði. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Leggja áherslu á að fylgja meginreglum
Í júní voru samþykkt á Alþingi lög um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka. Lögin fela í sér að hlutur ríkisins í bankanum verði seldur í markaðssettu útboði eða útboðum.
„Slíkt sölufyrirkomulag er talið best til þess fallið að fylgja meginreglum sem áhersla er lögð á við ráðstöfun ríkiseigna: gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Í lögunum er m.a. tilgreint með hvaða hætti safnað er í tvær tilboðsbækur í útboði, hvernig verðlagningu verði háttað og úthlutun fari fram,“ segir í tilkynningunni.
Öllum heimilt að taka þátt
Þá verður öllum áhugasömum heimilt að taka þátt í þeim útboðum sem fyrirhuguð eru. Fjársýsla ríkisins auglýsti í sumar eftir umsjónaraðilum fyrir útboðin bæði á innlendum og erlendum markaði. Tekið er fram að erlend fyrirtæki hafi sýnt útboðinu mikinn áhuga
Umsjónaraðilar munu annast skipulagningu og yfirumsjón útboða og meðal annars utanumhald tilboðsbóka.