„Ég opna það ekki, ég fæ Tekjublaðið sem áskrifandi af Viðskiptablaðinu og græt það á hverju ári að vinir mínir á Viðskiptablaðinu skuli hafa keypt Frjálsa verslun og ekki lagt þetta af. Ég skil hins vegar tekjusjónarmið þeirra út af þessu blaði,“ segir Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda, í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Tekjublaðið er gefið út árlega og má þar finna lista yfir tekjuhæstu Íslendingana á ýmsum sviðum. Tekjurnar eru reiknaðar út frá sköttum fólks og þurfa ekki að endurspegla það sem fram kemur á launaseðlum, enda getur fólk haft aðrar tekjur en þær. Skafti segist telja birtingu þessara upplýsinga brot á Persónuverndarlögum.
„Við afhendum yfirvöldum upplýsingar um tekjur okkar lögum samkvæmt og þau taka sig til og birta þetta fyrir almennings sem ég tel að sé alveg jafn mikið trúnaðarmál og útgjöld heimilis míns eða hvað annað sem ég geri,“ segir Skafti.
„Ég er algjörlega ennþá kjaftstopp að Persónuvernd hafi ekki á sínum tíma stöðvað þetta mál og opnað á það að þetta megi vera til sýnis á prenti í takmarkaðan tíma og til umfjöllunar í takmarkaðan tíma því auðvitað lifir þetta blað. Þetta er bara svo mikið bull.“
Hnýsni og öfund
Hann segir engan geta, með fullri vissu, reiknað út mánaðartekjur annars manns. Því sé útgáfa blaðsins „galið“.
„Ég tel þetta jafn galið og það að ég vil auðvitað krefjast þess að við birtum lista yfir tekjur bótaþega á Íslandi. Auðvitað er það fullkomlega galið en hver er munurinn á því að birta skatta fólks, og reikna tekjur þess út frá því, eða fara á hinn endann sem eru þeir sem þiggja skatta umfram það sem þeir hafa í tekjur,“ segir Skafti.
„Þarna eru allar tekjur fólks settar saman og þær geta verið sérkennilegar milli ára, tilfallandi. Þú getur verið í þremur störfum. Það segir ekkert til um það að fasta starfið þitt sé að gefa af sér það sem þarna er gefið upp.“
„Útgáfa þessa blaðs byggir á lægstu hvötum okkar mannanna. Þetta er hnýsni, öfund og samanburðarfræði. Þetta er auðvitað algjörlega verið að hræra í afskaplega ósmekklegum drullupolli.“
Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að neðan.