Alls greiddu 319 atkvæði með því að útnefna Paetontgtarn forsætisráðherra og 145 gegn. Hún er fjórða manneskjan úr Shinawatra fjölskyldunni til að setjast í embættið en hin þrjú, þeirra á meðal faðir hennar Thaksin og frænka hennar Yingluck, voru hrakin úr embætti í kjölfar valdaráns eða dómsúrskurða.
Fráfarandi forsætisráðherra, Srettha Thavisin, var einnig hrakinn úr embætti með dómsúrskurði eftir að dómarar komust að þeirri niðurstöðu að hann hefði brotið af sér með því að skipa lögmann sem hafði setið í fangelsi í ríkisstjórn sína.
Paetongtarn sagði í samtali við blaðamenn í gær að hún harmaði brotthvarf Srettha en þau tilheyra sama flokki.

Paetongtarn gekk í einkaskóla í Taílandi og stundaði háskólanám í Bretlandi, áður en hún hóf störf hjá Rende hótelsamsteypunni, sem er í eigu fjölskyldunnar. Eiginmaður hennar starfar einnig hjá Rende.
Hún gekk í Pheu Thai flokkinn árið 2021 og var útnefnd leiðtogi flokksins árið 2023.
Thaksin var í júní ákærður fyrir að vanvirða konungveldið en samkvæmt BBC hefur ákvörun dómstóla um að koma Srettha frá verið túlkuð sem viðvörun til Thaksin um að halda sig á mottunni. Thaksin, sem snéri aftur til Taílands í fyrra eftir 15 ára útlegð, er enn sagður hafa tögl og hagldir í Pheu Thai.