Vinícius er 24 ára gamall og átti ríkan þátt í að vinna Meistaradeildina og spænsku deildina á síðustu leiktíð. Hann er einn af þeim sem þykja koma til greina í baráttunni um Gullknöttinn í ár.
Sagt er að með því að fara til Sádi-Arabíu gæti hann fengið allt að 350 milljónir evra í árslaun, eða um það bil milljarð króna í hverri viku, og því kannski ekki skrýtið að kappinn sé í það minnsta opinn fyrir hugmyndinni.
Samkvæmt upplýsingum ESPN hafa verið í gangi viðræður á milli Almenna fjárfestingasjóðs Sádi-Arabíu (PIF) og Real Madrid varðandi Vinícius, jafnvel þó að spænska félagið vilji helst halda leikmanninum. Ekkert formlegt tilboð hefur þó enn verið lagt fram.
Vinícius skoraði 24 mörk alls í öllum keppnum fyrir Real Madrid á síðsutu leiktíð og er orðinn algjör lykilmaður hjá liðinu eftir að hafa komið árið 2018. Hann hefur til að mynda skorað í tveimur úrslitaleikjum Meistaradeildar Evrópu. Samkvæmt ESPN hefur hann hingað til ekki viljað hafna þeirri hugmynd að flytjast til Sádi-Arabíu.
PIF-sjóðurinn á 75% hlut í fjórum af helstu knattspyrnufélögum Sádi-Arabíu; Al Ahli, Al Ittihad, Al Hilal og Al Nassr.
ESPN segir að hugmyndin sé sú að Vinícius verði sérlegur sendiherra Sádi-Arabíu í aðdraganda heimsmeistaramótsins sem þar fer fram eftir tíu ár.
Vinícius er með samning við Real Madrid sem gildir til sumarsins 2027. Klásúla er í samningi hans sem gerir hann falan fyrir einn milljarð evra en samkvæmt upplýsingum ESPN þyrfti Real þó að sætta sig við lægri upphæð til þess að salan gengi í gegn.