Innlent

Sérsveitin sat um hús í Mos­fells­bæ í þrjá tíma

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Mynd er úr safni.
Mynd er úr safni. Vísir/Vilhelm

Sérsveit ríkislögreglustjóra fór í útkall í Flugumýri í Mosfellsbæ í gærkvöldi vegna tilkynningar um skothvelli sem barst á tíunda tímanum. Fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru á vettvangi ásamt samningamanni á vegum ríkislögreglustjóra í langan tíma og lokað var fyrir umferð um Skarhólabraut til um eitt í nótt.

Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að grunur hafi leikið á því að maður væri að hleypa af skotum í íbúðarhúsnæði á Flugumýri.

Lokunarpóstum var komið upp og samningamaður reyndi að ræða við ábúandann sem var ekki samvinnuþýður.

Rætt var við manninn heillengi og á endanum kom hann út úr húsinu og gaf sig fram við lögreglu. Hann þvertók fyrir að vera með skotvopn í fórum sínum en gaf enga aðra útskýringu á hvellunum. Reynt hafi verið að fá hann til að koma út úr húsinu í um þrjár klukkustundir.

Leitað var á manninum og á heimili hans en ekkert skotvopn fannst og að lokum var maðurinn látinn laus og lokunarpóstunum pakkað saman um eittleytið í nótt. Allmikið viðbragð var á vettvangi og eins og Gunnar segir er varinn alltaf hafður á þegar grunur leikur um vopnaburð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×