Hún er glæsileg rútan sem Jón Ögmundsson í Króki í Ölfusi gerði upp af sinni alkunni snilld með aðstoð góðs fólks, enda lítur rútan út eins og ný en hún er þó orðin 64 ára gömul.
„Það eru örfáir menn á Íslandi, sem kunna að aka svona tæknibúnaði, það eru engar tölvur og það þýðir ekki að setja nútímamenn undir stýri á þessu. Þetta er vel gert og allt haft original, þannig að þetta er bara eins og nýtt eins og þú sérð, bæði að utan og innan,” segir Einar Gíslason, gamalreyndur rútubílstjóri.
Rútan er mjög falleg og vekur alltaf mikla athygli.
„Já, hún er rosalega falleg og gaman að þessu og þeir eiga heiður skilinn, sem leggja aurana sína og vinnu í að viðhalda svona menningarverðmætum,” bætir Einar við.

Og Einar tók nýlega að sér að keyra fyrrverandi skipstjóra og útgerðarmenn á rútunni um Ölfusið og í Þorlákshöfn en allt eru þetta skólabræður úr Stýrimannaskólanum, sem halda alltaf hópinn með sínum konum.
„Við erum að halda upp á að það eru 60 ár frá því að við útskrifuðumst og erum búin að hittast í 40 ár einu sinni á ári,” segir Einar Sigurðsson, fyrrverandi útgerðarmaður í Þorlákshöfn og fararstjóri ferðarinnar.

En hvernig líst þér á rútuna sem þú ert að fara í?
„Rútuna, hún bara tilheyrir þessum árgangi og þetta er bara gott að fá svona jafnaldra í hópinn,” segir Birgir Sigurðsson, fyrrverandi útgerðarmaður á Höfn í Hornafirði.
Hvernig leggst það í þig að fara í þessa rútu?
„Mjög vel, hún er svo falleg, rauð og hvít og hæfir hópnum vel,” segir Auður Höskuldsdóttir, farþegi í rútunni.

