Eldarnir eru sagðir hafa farið yfir meira en 140 þúsund hektara landsvæði frá því að þeir kviknuðu á miðvikudag, eftir því sem fram kemur á vef BBC. Það er stærra en Los Angeles-stórborgarsvæðið. Á sjöunda tug bygginga hafa eyðilagst í eldinum en engan hefur sakað til þessa.
Íbúum í bæjum í Butte-sýslu var sagt að vera í viðbragðsstöðu að yfirgefa heimili sín í gær, þar á meðal í bænum Paradise sem brann nær til kaldra kola í gróðureldi árið 2018.
Slökkviliðsmönnum hefur gengur erfiðlega að ráða niðurlögum eldanna. Aðstæður á vettvangi hafa gert þeim erfitt fyrir, svæðið er brattlent og vindar blása. Einhver árangur náðist þó í gær þegar veðuraðstæður urðu hagfelldari með svalara og rakara lofti, að sögn AP-fréttastofunnar.
Maður á fimmtugsaldri var handtekinn fyrir helgi, grunaður um að hafa valdið eldsvoðanum með því að velta brennandi bíl út í gil í nágrenni við þekkt útivistarsvæði við borgina Chico í Butte-sýslu. Maðurinn flúði vettvang.
Park-eldarnir, eins og þeir hafa verið nefndir, eru umfangsmestu gróðureldarnir í Kaliforníu í ár. Hann er þó aðeins einn af fleiri en hundrað gróðureldum sem brunnu í Bandaríkjunum í gær. Viðvaranir vegna reykmengunar frá eldunum voru í gildi þar sem milljónir manna búa í norðvestanverðum Bandaríkjunum og vestanverðu Kanada í gær.