Spánn vann Frakkland 2-0 þar sem Iker Bravo og Assane Diao skoruðu mörkin. Bravo er leikmaður unglingaliðs Real Madrid en Diao spilar með Real Betis.
Spánverjar voru að vinna EM 19 ára landsliða í fyrsta sinn síðan 2019 þegar liðið vann Portúgal 2-0 í úrslitaleiknum. Þá skoraði Ferran Torres, leikmaður Barcelona, bæði mörkin.
Ítalir unnu EM U19 í fyrra og Englendingar þar á undan. Spánverjar hafa alls unnið þessa keppni tólf sinnum sem er met. England átti metið með Spáni fyrir sigurinn í gærkvöldi.
Sigur spænska landsliðsins í gær heldur líka áfram ótrúlegri sigurgöngu spænskra fótboltalandsliða í stórkeppnum síðustu ára.
Þetta þýðir nefnilega að spænsk landslið eru nú ríkjandi meistarar í níu keppnum í fótboltanum, fjórum hjá fullorðnum og fimm hjá yngri landsliðum.
Spænska A-landslið karla varð Evrópumeistari á dögunum og það vann einnig Þjóðadeildina í fyrra. Spænsku stelpurnar urðu heimsmeistarar í fyrra og þær unnu líka Þjóðadeildina.
Spánn er líka heimsmeistari hjá bæði tuttugu ára og sautján ára konum sem og Evrópumeistari hjá bæði sautján ára og nítján ára konum.