Málið varðar ábendingu sem umboðsmanni barst um að í notkun væri lögreglumerki sem virtust ekki eiga sér stoð í umræddri reglugerð.
Umboðsmaður óskaði skýringa hjá ríkislögreglustjóra, sem sagði meðal annars að nauðsynlegt hefði verið að taka upp nýja lögreglustjörnu til að svara nútímakröfum, þar sem stjarnan sem getið er í reglugerðinni hafi „reynst illa til stafrænnar útgáfu“.
Þá hafi í eldri hönnun ekki verið horft til skýrleika og sýnileika merkja, sem nú sé gerð krafa um.
Ríkislögreglustjóri segir í svörum sínum að embættið hafi tekið það formlega upp við dómsmálaráðuneytið 18. mars síðastliðinn að endurskoða þyrfti reglugerðina en í niðurstöðu sinni beinir umboðsmaður því til ríkislögreglustjóra „að gæta framvegis að því að haga framkvæmd sinni með þeim hætti að breytingum sé ekki hrint í framkvæmd áður en viðeigandi breytingar hafa verið gerðar á þeim réttarreglum sem við eiga“.