Tvíeykið kemur saman aftur á skemmtistaðnum Radar en að því er fram kemur í tilkynningu er búist við miklu fjöri á dansgólfinu. Upphitun verður í höndum Sbeen Around og Evu Luna, það er Evu H. Baldursdóttur.
Sú síðarnefnda starfaði áður sem lögfræðingur í fjármálaráðuneytinu og var virk í pólitík en hóf svo að spila danstónlist aftur eftir áratuga hlé. „Það eru allir rosa spenntir, það er mikil stemning,“ segir Eva í samtali við fréttamann.
Búist sé við góðri mætingu frá því fólki sem var hvað mest í þessari senu í kringum aldarmótin. Frímann og Arnar voru einmitt þekktastir á þeim tíma og spiluðu þá á helstu skemmtistöðum landsins.
Eva nefnir að þeir hafi spilað með heimsþekktum plötusnúðum á sínum tíma. Sem dæmi má nefna plötusnúða á borð við Sasha, Kevin Saunderson og Laurent Garnier.
Á Radar verður einnig boðið upp á aðeins harðari tónlist í kjallaranum, meira teknó. Þar munu þau Friðfinnur „Oculus“ Sigurðsson og Ása Kolla „The Clubkid“ ráða ríkjum.
Sjá má nánari upplýsingar um viðburðinn hér.