Eftir að búið var að fylla loftbelginn af heitu lofti tókst hann á loft frá flugvellinum á Hellu upp úr klukkan sex. Fjórir menn voru um borð í körfunni, tveir þýskir loftbelgsflugmenn og tveir farþegar, þeir Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, og Ágúst Guðmundsson, fulltrúi í framkvæmdastjórn Alþjóðaflugmálafélagsins.
Í fyrstu stýrði hægur andvari úr suðaustri flugi belgsins til norðvesturs frá Helluflugvelli norður með þorpinu í átt að Ytri-Rangá. Yfir ánni tók við hægur andvari úr suðvestri sem stýrði belgnum til norðausturs upp með ánni. Þegar hann nálgaðist Árbæjarfoss ákváðu flugmennirnir að lækka flugið svo loftbelgsfarar gætu notið þess að svífa lágt yfir fossinum.

Loftbelgurinn sveif síðan áfram til norðausturs upp með vesturbakka Ytri-Rangár. Á leiðinni vakti hann forvitni hrossastóðs. Hrossin voru í fyrstu róleg en fældust þegar kveikt var upp í gasbrennara loftbelgsins með tilheyrandi hávaða en tóku belginn svo aftur í sátt.

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá að loftbelgsmenn flugu einnig upp í skýjahæð. Þeir voru raunar ofar skýjum um tíma en þó með sýn til jarðar í gegnum skýjaglufur.

Upp úr klukkan hálf átta var honum lent í landi Heklusels í Landi, um tólf kílómetra norðaustan Hellu en um tvo kílómetra vestan Ytri-Rangár.
Næsta flug loftbelgsins er fyrirhugað um klukkan 18:30 í kvöld. Stefnt er að því að það verði sýnt í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2.

Eins og fram kom á Vísi í morgun er áformað að loftbelgurinn fljúgi yfir Suðurlandi næstu daga, eftir því sem veður leyfir. Hann er kominn til landsins frá Þýskalandi í tengslum við flughátíðina Allt sem flýgur sem fram fer á flugvellinum á Helluflugvelli um næstu helgi.

Flugmálafélag Íslands stendur fyrir komu loftbelgsins í samvinnu við Icelandair, bílaleiguna Hertz og Hótel Rangá. Loftbelgurinn kemur frá H2 Ballooning sem þýskir atvinnumenn á sviði loftbelgjaflugs reka með Dominik Haggeney sem aðalflugmann.

Samhliða stendur yfir Íslandsmót í flugi. Flugkeppnin hefst í dag, þriðjudag, og stendur fram á fimmtudag, en keppt er í nokkrum mismunandi þrautum.
Ljósmyndirnar og myndskeiðin sem hér fylgja tóku þeir Matthías Sveinbjörnsson og Sveinbjörn Darri Matthíasson.