Innlent

Flestir treysta ríkis­stjórninni miklu verr eftir að Bjarni tók við

Jón Þór Stefánsson skrifar
Forrysta endurnýjaðrar ríkisstjórnar: Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra.
Forrysta endurnýjaðrar ríkisstjórnar: Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Sjötíu og tvö prósent landsmanna treysta ríkisstjórninni verr eftir að Bjarni Benediktsson tók við embætti forsætisráðherra. Hins vegar treysta ellefu prósent ríkisstjórninni betur eftir að Bjarni tók við stjórnartaumunum en átján prósent jafn mikið. Þetta eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Maskínu.

Könnunin fór fram 26. júní til 1. júlí á þessu ári, en svarendur voru 1098 talsins.

Svarendur voru spurðir hvort þeir treystu ríkisstjórninni betur eða verr eftir að Bjarni tók við forsætisráðuneytinu en formleg lyklaskipti urðu á milli Bjarna og Katrínar Jakobsdóttur þann tíunda apríl síðastliðinn, en í dag eru níutíu dagar síðan hann tók við embættinu.

Í raun sögðust 57,4 prósent treysta ríkisstjórninni miklu verr eftir að Bjarni tók við, 14,5 prósent sögðust treysta henni verr, 17,6 prósent jafn mikið, 4,9 prósent treysta henni aðeins betur, og 5,6 prósent miklu betur.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins treysta ríkisstjórn Bjarna best. 44,5 prósent þeirra sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn treysta ríkisstjórninni betur eftir að hann tók við. 40,4 prósent jafn mikið, og 15,1 prósent verr.

Miðflokks- og Framsóknarmenn treysta endurnýjuðu ríkisstjórninni næst mest. 23 prósent Miðflokksmanna og 13,6 próesent Framsóknarmanna treysta henni betur með Bjarna í brúnni.

Óánægjan er mest hjá Pírötum, Samfylkingunni og Vinstri grænum. 98,6 prósent Pírata treysta stjórninni verr, 93,6 prósent Samfylkingarmanna og 94,4 prósent Vinstri grænna eru á sama máli.

Í skoðanakönnun Maskínu var einnig spurt út í hversu líklegt eða ólíklegt svarendum þykji að ríkisstjórnin sitji út núverandi kjörtímabil. 37 prósent segja það líklegt, 40 prósent ólíklegt og 23 prósent segja það í meðallagi líklegt.

Þá voru svarendur spurðir hversu mikið eða lítið þeim þætti ríkisstjórnin hafa gert til að lækka vexti og verðbólgu á Íslandi. 5 prósent sögðu mikið en 81 prósent lítið. 15 prósent sögðu í meðallagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×