Kvikmyndahátíðin fer fram í Háskólabíói þar sem sviðslistahúsið Afturámóti hefur komið sér fyrir. Í sumar stendur hópurinn fyrir fjölda leiksýninga og gjörninga.
Einn þeirra er fyrrnefnd hátíð Strandgate Film Festival. Elín Margrét fréttamaður ræddi við aðstandendur sýningarinnar í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2. Þau Kolbeinn Sveinsson og Berglind Alda Ástþórsdóttir voru í banastuði:
„Til að draga þetta aðeins niður á jörðina, þá er þetta í raun leiksýning og bíó. Sett saman í eitt. Kjarni málsins er að við erum allt. Við erum að kynna, leika í bíómyndunum, veita verðlaun, taka á móti verðlaunum,“ sagði Kolbeinn.
„Tilgangurinn með þessu er að gera grín að bransanum, við erum að gera grín að íslenskum og erlendum kvikmyndum. Klisjunum á þessum hátíðum og í þessum myndum. Þannig við erum að reyna að hafa gaman að þessu og hafa smá sprell,“ sagði Berglind Alda.
Hægt er að nálgast miða á sýningar á vegum Afturámóti hér.